Hollráð til að öðlast hraustlega húð

Höfundur: Herbalife Nutrition
Kona að annast um húðina með því að bera á sig Herbalife SKIN vöru

Of mikil vinnugleði

Það er ekki vinnugleðin sem slík sem er óæskileg heldur að dvelja of löngum stundum á vinnustaðnum. Líklegast er að þú sitjir innan dyra, í innanhússhitun eða loftræstingu allan daginn. Það sem þú þarft fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að húðin verði daufleg er hreint og ferskt loft, sem er ekki endurnýtt í eilífri hringrás. Umhverfið og streita hversdagslífsins, vegna þeytings milli staða, langdvala á fundum og skammra tímamarka, geta leitt til þess að húðin verði líflaus og grámygluleg.

Því er mikilvægt að gefa húðinni (og þér) verðskuldað frí. Komdu þér út undir bert loft, slíttu þig frá tölvuskjánum og gættu þess að bera ríkulegt magn af rakakremi á húðina til að tryggja henni vökvafyllingu og vernd.

 

Þjálfaðu þig í skorpum með hléum á milli

Ég er gífurlegur aðdáandi skorpuþjálfunar vegna fitubrennsluáhrifanna sem fylgja í kjölfar áreynslunnar. Í kraftmikilli skorpuþjálfun notar líkaminn kolvetni sem eldsneyti, en brennir síðan fitu í kjölfarið meðan hann er að jafna sig. Skorpuþjálfun tekur minni tíma og gefur ótrúlegan fitubrennsluárangur eftir aðeins 30 mínútna áreynslu. Reyndu því að stunda slíka þjálfun tvisvar í viku.

 

Hreinsaðu húðina til að gera hana hraustlega

Hreinsaðu húðina tvisvar á dag, sérhvern morgun og sérhvert kvöld fyrir háttinn, alveg sama hvað á gengur. Jafnvel þótt húðin virðist hrein er alls ekki víst að svo sé. Allar líkur eru á því að hún sé þakin ósýnilegum óhreinindum sem geta skaðað hana. Komdu þeim fyrir kattarnef.

Gættu þess að forðast venjuleg sápustykki og halda þig við mildar andlitshreinsivörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir þína húðgerð.

Þurrkaðu aldrei húðina með handklæðinu sem hangir við vaskinn. Ef það er ekki hreint gætir þú flutt bakteríur yfir á frísklegt og nýhreinsað andlitið. Prófaðu að þefa örstutt af handklæðinu. Ef það ilmar ekki eins og það sé nýkomið úr þvotti gæti verið rétt að henda því í þvottakörfuna og ná í hreint.

Skolaðu húðina eingöngu með ylvolgu vatni, aldrei með vatni sem er of heitt eða of kalt. Öfgar í hitastigi geta verið ertandi fyrir húðina og valdið skaða.

Notaðu skrúbbkrem að minnsta kosti einu sinni í viku. Mild skrúbbkrem hreinsa brott dauðar frumur af andlitinu og stuðla þannig að sléttari og mýkri húð með aukinni útgeislun.

Alveg eins og gildir um hreinsivörurnar skalt þú gæta þess að finna skrúbbkrem sem hentar þinni húðgerð.

Fjárfestu í andlitsbaði öðru hverju. Rétt eins og þú ferð í tannhreinsun hjá tannlækni þarf húðin einnig á djúphreinsun að halda. Tíðni andlitsbaða veltur á húðgerðinni. Ákvarðaðu í samráði við snyrtifræðinginn þinn hversu oft þurfi að djúphreinsa þína húð.

Notaðu mild handtök þegar þú hreinsar kringum augun. Húðin umhverfis augun er sú þynnsta á öllum líkamanum. Fara þarf sérstaklega mjúkum höndum um hana.

 

Berðu vörurnar á þig í réttri röð

Í allri húðumönnun þarf að fylgja réttum skrefum til þess að tryggja sem mestan ávinning. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningunum sem fylgja með vörunum og nota þær í þeirri röð sem lagt er til. Hreinsikrem er fyrsta skrefið, svo kemur andlitsvatn, síðan húðdropar og loks rakakrem. Þegar þú berð vörurnar á þig í rangri röð átt þú á hættu að áhrifin verði neikvæð eða kannski alls engin. Húðdropar komast t.d. lengra niður í húðina en rakakrem. Þess vegna verður að bera þá á sig fyrst. Ef þú berð húðdropana á þig á eftir rakakreminu komast þeir ekki almennilega niður í húðina til þess að gera sitt gagn. Ef þú berð vörurnar ekki á þig í réttri röð gætu viðbrögðin orðið neikvæð. Berðu því vörurnar á þig eins og ráðlagt er til þess að öðlast eins fallega húð og frekast er unnt.

Næst þegar þú lítur í spegilinn og finnst það sem þú sérð ekki ásættanlegt skalt þú muna eftir þessum einföldu skrefum. Prófaðu að fylgja þeim og athugaðu hvort þú tekur eftir breytingu. Húðin þarfnast þess að þú hugsir um hana svo hún geti haldið áfram að hlúa að þér. Mundu að heilbrigðasta húðin er ávallt sú fallegasta. 

 

Vanræktu ekki mataræðið

Ef það er eitt sem flest okkar vita, þá er það mikilvægi heilnæms mataræðis. Rétt næring kemur öllum líkamanum til góða og hjálpar okkur að vera upp á okkar besta, bæði í útliti og líðan. Húðin endurspeglar beinlínis allt sem gerist innvortis í líkamanum.

Þegar við tryggjum okkur ekki holla næringu munu neikvæð merki þess gera vart við sig í húðinni. Hörundið glatar þá þeim hraustlega bjarma sem við sækjumst öll eftir. Allt sem við látum ofan í okkur getur haft áhrif á útlit húðarinnar.